Vöffluvefnaður dregur nafn sitt af því að útlit hans minnir á vöfflur eða tígla sem eru ýmist með band- eða þráðaráferð þar sem einskeftubinding liggur á milli þeirra. Vöffluvefnaður er leiddur af hringavaðmáli og hann má vefa á 4 til 10 sköftum. Einn eða fleiri þræðir eða fyrirdrög bindast aðeins einu sinni í munstureindinni og þess vegna verður að gæta þess að munstureindin sé ekki of stór þannig að löng, laus bönd myndist ekki. Vöffluvefnaður var og er einkum notaður í handklæði, rúmteppi og efni með ýfðri áferð.
Sprangdregill einkennist af lausum böndum sem liggja með reglubundnu millibili á einskeftugrunni. Þessi bönd, sprangið, eru ýmist úr ívafi eða uppistöðu eða hvoru tveggja og gera voðina örlítið upphleypta. Kóngulóarvefnaður er líkur sprangdreglinum en er yfirleitt einfaldari að gerð og er ekki ofinn eftir kaflamunstrum.
Kniplingavefnaður einkennist af bogum eða bylgjum sem myndast þegar voðin er ofin og líta út eins og augu eða bollar í vefnaðinum. Hann er ofinn eftir tví-, þrí- eða fjórköfluðum dregilsmunstrum. Hér áður fyrr var kniplingavefnaður ofinn eftir smágerðum dregilsmunstrum og notað fíngert uppistöðuband, en einnig er hægt að vefa hann úr tvinnuðu ullarbandi eða hafa bómull í uppistöðu. Bindingin einkennist helst af því að kaflar með einskeftubindingu skiptast á við aðra lítt bundna eða óbundna kafla.
Skoða myndir