- 16 stk.
- 05.03.2020
Austurbotnsdregill er eins og nafnið bendir til, uppruninn í Finnlandi og hann má vefa eftir tví-, þrí- eða fjórköfluðum dregilsmunstrum. Hann er ofinn á fjórum hafaldasköftum eins og salún, daladregill, hálfdregill.
Í Austurbotnsdregli er fjórði hver þráður yfirleitt notaður sem bindiþráður og munsturbandið er því mjög þétt bundið og fer aldrei yfir fleiri þræði en fjóra. Ofið er eftir smágerðum þrí- eða fjórkaflamunstrum þar sem tveir og tveir kaflar mynda gjarnan munstur samtímis. Hver rúða táknar að jafnaði þrjá þræði og einn bindiþráð. Því eru í raun notuð þrjú sköft af fjórum fyrir hvern kafla þannig að venjulega vefst í tvo kafla samtímis. Ef kaflarnir koma í réttri röð hver á eftir öðrum, má sleppa bindiþræðinum við kaflaskipti eða hafa tvo bindiþræði, þannig að hver kafli byrjar og endar á bindiþræði.