Ormeldúkur, satín
- 44 stk.
- 08.03.2020
Ormeldúkur heitir þriðja frumbindingin. Á mörgum tungumálum er notað heitið satín yfir ormeldúk en hér á landi var hann einnig nefndur formeldúkur. Ormeldúkur er áferðarfallegri en annar vefnaður enda er hann sléttur og gljáandi vegna þess að bindipunktunum er dreift á reglubundinn hátt yfir allt bindimunstrið. Hver þráður liggur því yfir marga aðra þræði. Ormeldúkur þekkist því oftast af því að bindipunktarnir í voðinni snertast ekki og þeim er dreift reglulega með svonefndri stigtölu, en það er fjöldi þeirra þráða sem bindingin færist til um við hvert fyrirdrag. Ekki er hægt að vefa ormeldúk á færri sköft en 5 – einnig 7 sköft, 8 sköft, 9 sköft, 10 sköft eða fleiri. Ormeldúkur hefur ýmist band- eða þráðaráferð á réttunni, þá öfugt á röngunni, og nefnist þráðarormeldúkur eða bandormeldúkur. Uppistöðuþræðirnir eru ríkjandi í þráðarormeldúk en ívafsþræðirnir í bandormeldúk. Ormeldúkur er alltaf dreginn inn í höföld með beinum inndrætti og stiginn með beinu stigi.
Skoða myndir