Höfundar
-
Gagnagrunnurinn - About the database
Gagnagrunnur í vefnaði er fyrsti sinnar tegundar á Íslandi og er hann í eigu Textílmiðstöðvar Íslands á Blönduósi. Má finna hér heimildir frá fjórum íslenskum vefurum og kennara frá 1932 - 1990, handskrifuð vefnaðarmunstur, vefnaðarprufur og uppskriftir fyrir vefnað í vefstól.
Yfirumsjón með innsetningu gagna í gagnagrunninum og jafnframt verkefnisstjóri var Ragnheiður B. Þórsdóttir veflistakona og kennari. Aðstoðarkonur hennar voru þær Cornelia Theimer Gardella, sem ljósmyndaði öll gögn og sá um þýðingar yfir á ensku og Guðbjörg Þóra Stefánsdóttir hönnunarnemi, sem hefur unnið við að vefa prufur í TC2 stafrænum vefstól, flokka og raða gögnum.
Stefna á Akureyri sá um hönnun, forritun og uppsetningu á gagnagrunninum og hýsir hann jafnframt.
Forsagan
Í Kvennaskólanum á Blönduósi er til mikið magn af vefnaðarmunstrum, uppskriftum og prufum, bæði frá því á dögum skólahalds og sem hafa verið gefin til varðveislu. Til eru öll frumgögn fjögurra íslenskra vefara og eins vefnaðarkennara sem starfaði við skólann á sjötta og sjöunda áratug seinustu aldar. Gögnin eru í formi handskrifaðra vefnaðarmunstra, vefnaðarprufa og uppskrifta fyrir vefnað í vefstól. Textílmiðstöð Íslands hefur fengið að gjöf allar prufur og vefnaðarmunstur frá Vefstofu Guðrúnar Jónasardóttur vefnaðarkennara sem starfaði um miðbik seinustu aldar, og einnig kennslugögn frá kennsluferli Guðrúnar í Textíldeild Myndlistar- og handíðnaskóla Íslands. Mikið af kennslugögnum Sigríðar Jóhannsdóttur vefara og vefnaðarkennara hafa einnig verið gefin Textílsetri til varðveislu. Kennslugögn í vefnaði, munstur og sýnishorn sem notuð voru á þeim áratugum sem Kvennaskólinn á Blönduósi starfaði, eru til að einhverju leiti og hafa Vinir Kvennaskólans haldið utan um þau gögn, svo og öll vefnaðargögn Solveigar Arnórsdóttur vefnaðarkennara.
Umfang gangnanna er mikið, 1000 handskrifaðar blaðsíður af vefnaðarmunstrum og uppskriftum fyrir vefnað og yfir 1500 vefnaðarprufur sem þegar er komið til varðveislu. Hér er um ómetanleg frumgögn að ræða og afar mikilvægt að varðveita, ekki síst vegna þess hversu mikilvægur vefnaður var hér á landi frá landnámi og upp á 20. öldina. Þau hafa því menningar-, hönnunar- og sagnfræðilegt gildi sem mikilvægt er að skrásetja.
"Bridging Textiles to the Digital Future"
Árið 2017 var sótt um styrk fyrir verkefnið ,,Bridging Textiles to the Digital Future" úr Tækniþróunarsjóði Rannís og fékkst styrkur til þriggja ára. Ætlunin var að skrásetja, mynda, flokka og hanna rafrænan gagnagrunn sem hýsir öll bindimunstur, vefnaðarprufur og uppskriftir sem hér eru varðveitt.
Fyrsta árið fór nær eingöngu í skrásetningu gagna í tölvutækt form og ljósmyndun á þeim. Annað árið fór í áframhaldandi skrásetningu á gögnum, úrvinnslu þeirra þar sem bindimunstur voru unnin inn í Photoshop til að hægt væri að nýta þau á nýjan og frumlegan hátt í stafrænum vefnaði í TC2 vefstól. Einnig var klárað að ljósmynda gögnin og þau flokkuð. Á þriðja árinu var hinn rafræna gagnagrunn settur upp, ásamt því að ljúka skráningu, flokkun og frágangi á gögnunum. Bindimunstrin voru öll sett inn í sérstakt vefnaðarforrit, WeavePoint, og þannig komið inn í stafrænt umhverfi. Alls hafa yfir 1200 vefnaðarmunstur verið greind og unnin inn í vefnaðarforritið.Gagnagrunnurinn sjálfur er nú opinn öllum en uppskriftirnar er hægt að kaupa hér á síðunni. Innifalið í kaupunum er uppskrift fyrir munstrin sem sent er sem PDF skjal í tölvupósti. PDF skjalið er bæði á íslensku og ensku. Munstrin sjálft er hægt að prenta beint af síðunni.
-
Guðrún Jónasdóttir (1916 - 1997)
Guðrún er fædd á Stuðlum við Reyðarfjörð 28. desember 1916, elst sjö systkina, barna Valgerðar Bjarnadóttur (1885 - 1974) og Jónasar Péturs Bóassonar bónda (1891 - 1960).
Guðrún fluttist 5 ára að Grímsstöðum og síðar að Bakka við Reyðarfjörð þegar Jónas hætti búskap og hóf verkamannastörf á Búðareyri. Guðrún sýndi strax mikinn áhuga á skólagöngu og var námsglöð, hún lauk barnaskóla og útskrifaðist úr Unglingaskóla á Reyðarfirði 1933. Guðrún fór í Húsmæðraskólann á Hallormsstað og var þar yngst námsmeyja hjá Sigrúnu P. Blöndal skólastýru árin 1934 - 1936. Guðrún fékk mjög góð meðmæli og þótti strax með afbrigðum vandvirk. Stuðning og hvatningu fékk hún frá foreldurm sínum og frændum. Guðrún launaði greiðann og greiddi fyrir með handverki sínu þannig að heimili við Reyðarfjörð fengu að njóta vefnaðar hennar strax eftir árin á Hallormsstað. Á Hallomrsstað eignaðist Guðrún vini úr hópi námsmeyja og staðarfólks, vináttu sem hún ræktaði alla sína æfi.
Hugur Guðrúnar var til frekara náms og fór svo að föðursystir hennar og nafna Guðrún Brunborg Bóasdóttir bauð henni að koma til Noregs og gerast vinnukona á heimili sínu. Guðrún sagði oft að söðursystir sín hefði verið sinn erfiðasti atvinnurekandi, ströng og oft óréttlát, og ekki fékk hún að búa við sama kost og frændsystkini sín, sem þó vildu líta á hans sem eina úr fjölskyldunni. Síðar þegar Guðrún flutti af heimili Brunborg fjölskyldunni og kom sem gestur tók Guðrún föðursystir hennar á móti henni með kosti og kynjum og sagði að staða hennar væri sem einnar úr fjölskyldunni en ekki sem vinnuhjú. Guðrún Sigurbjörg og nanfa hennar Brunborg héldu alla tíð miklu sambandi og var góður vinskapur með þeim frænkum. Næstu árin er Guðrún Sigurbjörg í Noregi og líkur námi 1938 sem vefnaðarkennari frá Den Kvinnelige Industriskole, nú Statens læreskole i forming, í Osló.
Í grein sem Guðrún skrifaði um áhrifavald í sínu lífi, Ragnhildi Pétursdóttur í Hátegi, segir hún frá námslokum sínum og heimkomu: ,,Fjárráð þeirra tíma nemenda voru ekki uppá marga fiska og þóttist hver hólpinn sem átti fyrir næstu máltíð, í hópi þeirra ser ekki áttu það er greinarhöfundur. Eina góðviðrishelgi var ég sem oftar stödd á heimili föðursystur minnar, Guðrúnar Brunborg, erbúsett var skammt frá Osló. Fleiri gestir voru þar og þeirra á meðal Lára Sigurbjörnsdóttir frá Ási í Reykjavík en hún hafði kennt mér á Húsmæðraskólanum á Hallormsstað. Kjör mín bárust í tal og sagði Lára þá: ,,Skrifaðu til Ragnhildar Pétursdóttur í Háteigi, hún er í stjórn Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfélaga, það kostar ekkert að reyna." Seinni hlutann í ágúst kemur til mín bréf frá Ragnhildi og boð um vinnu á vegum Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfélaga, laun sem barnakennari og farmiði heim til Íslands, sem ég gæti greitt fegar ég fengi kaup."
Minnispunktar um Guðrúnu Sigurbjörgu Jónasdóttur vefnaðarkennara og vefara eru skrifaðir af Fríðu Björgu Eðvarsdóttur, dóttur Guðrúnar.
-
Kvennaskólinn - the former Women's School in Blönduós
Vefnaðarmunstur og uppskriftir sem eru í gagnagrunninum eru frá 1961 - 1972. Um er að ræða eina handskrifaða stílabók, sem er í eigu Vina Kvennaskólans á Blönduósi en í henni eru yfir 100 bindimunstur og uppskriftir.
Kvennaskóli Húnvetninga.
Kvennaskóli Húnvetninga var stofnaður árið 1879 og hóf starfsemi á Undirfelli í Vatnsdal. Upphafs- og forgöngumaður að stofnun skólans var Björn Sigfússon frá Undirfelli, síðar bóndi og alþingismaður á Kornsá. Björn var um þetta leyti ungur maður og hafði dvalið erlendis. Hefur eflaust kynnst straumum og stefnum í skólamálum þar. Honum fannst nauðsynlegt að konur ættu þess kost að afla sér menntunar, en áður höfðu efnabændur sent syni sýna í skóla en dæturnar biðu þess að giftast. Um það leyti sem Björn fór að vinna að skólamálunum voru stofnaðir þrír skólar fyrir konur, Kvennaskólinn í Reykjavík, stofnaður 1874, Laugalandsskóli og Kvennaskóli Skagfirðinga árið 1877.
Safnað var áheitum hjá hreppunum um framlag til skólans og var því vel tekið. Auk þess fór fram söfnun til styrktar nemendum. Séra Hjörleifur Einarsson á Undirfelli tók skólann inn á heimili sitt fyrsta starfsárið og kenndi bóklegar greinar. Björg Schou frænka Hjörleifs ung stúlka, kenndi allar verklegar greinar og fórst vel. Fimm stúlkur sóttu nám átta vikur í senn og voru kennslutímabil þrjú á vetrinum. Næstu tvö árin starfaði skólinn á Lækjarmóti í Víðdal og var Elín Briem ráðin forstöðukona. Fjórða starfsár skólans var hann fluttar að Ytri-Ey. Þar var keypt húsnæði og jarðarpartur og þar var skólinn rekinn í 18 ár.
Árið 1880 tók sýslunefnd Húnavatnssýsna að sér rekstur skólans í samvinnu við sýslunefnd Skagafjarðarsýslu. Sótt var um styrki í jafnaðarsjóði amtsins og landssjóð. Samin var skipulagsskrá og reglugerð fyrir skólann. Fyrstu tvö árin var árlegur styrkur, er Eyjaskólinn fékk úr landssjóði kr. 800,00. Árið 1885 var styrkurinn hækkaður upp í kr. 1.000,00 og 1887 upp í kr. 1.200,00. Gjöldin voru laun kennslukvenna og ráðskonu, munir- og kennsluáhöld, kostnaður við stjórn skólans, matværi, eldsneyti, ljósmeti o.fl.
Er skólinn var fluttur að Ytri-Ey urðu kennslutímabil tvö á tímabilinu 1. október til 15. maí. Skólanum var skipt í bekki, fyrsta og annan bekk og handavinnudeild. Próf voru haldin í öllum greinum og prófdómarar skipaðir til að dæma prófin. Í húsinu á Ytri-Ey var rúm fyrir 20 stúlkur í senn að kennslukonum meðtöldum. Námsgreinar sem kenndar voru á Ytri-Ey, voru nokkru fleiri en verið höfðu í skólum Húnvetninga og Skagfirðinga. Kennt var: Skrift, réttritun, reikningur, landafræði, Íslandssaga, mannkynssaga, danska, söngur, fatasaumur, útsaumur og ýmsar hannyrðir aðrar, þvottur og matreiðsla. Í fyrstu sóttu stúlkur úr Húnvatns- og Skagafjarðarsýslum fyrst og fremst skólann en fljótt fór svo mikið orð af skólanum í höndum Elínar Briem að orðstír hans barst um allt land og umsóknir bárust úr öllum landshlutum, þó flestar af Austurlandi. Af Eyjaskóla þótti það sannmæli sem fornkveðið var að öllum kom hann til nokkurs þroska.
Kennslubækur.
Við skriftarkennslu notaði Elín Briem útlend forskriftarblöð. Var sú skrift kölluð koparstunga. Höfðu námsmeyjar blöðin fyrir sér og æfðu sig við að skrifa eftir þeim. Rituðu margar þær, sem í Eyjaskóla lærðu, mjög fagra hönd. Elín Briem forstöðukona samdi Kvennafræðarann og gaf út. Var það handbók um matreiðslu, matargeymslu, saumaskap, prjón og margt annað. Varði Elín sumarfríum sínum til að rita bók þessa. Kom hún fyrst út 1888 og þá í þrjú þúsund eintökum. Seldist hún upp á skömmum tíma og var síðan endurprentuð þrem sinnum. Er Kvennafræðarinn talinn ein hin vinsælasta og jafnframt þarfasta bók, sem gefin hefir verið út fyrir konur á Íslandi. Í handavinnu var sérstök áhersla lögð á það að námsmeyjar lærðu að sníða og sauma fatnað, bæði á karla og konur. En auk þess voru kenndar ýmsar hannyrðir, svo sem ýmiskonar útsaumur, knippl, hekl, prjón og sitthvað annað.
Á sýslunefndarfundi 5.-10. mars 1900 var samþykkt að flytja kvennaskólann frá Ytri-Ey til Blönduóss og byggja nýtt skólahús. Á þessum tímamótum hættu Skagfirðingar þátttöku í rekstri skólans. Snorri Jónsson timburmeistari á Akureyri sá um byggingu skólahússins. Skólinn hófst í nýju húsi 1. október 1901 með 30 nemendur, en flestir munu nemendur hafa orðið 50 í húsinu.
Skólahúsið brennur.
Aðfaranótt 11. febrúar 1911 brann skólahúsið á Blönduósi. Fórst þar mikið af gögnum og eigur heimilisfólks. Nokkuð var af mat í útihúsi og bjargaðist úr brunanum. Studdi það að því að ákveðið var að halda uppi skólastarfinu út námstímann. Varð það úr að leigt var húsnæði í Tilraun, Templarahúsinu og Möllershúsi á Blönduósi. Auk þess var heimilisfólki komið fyrir í fæði á nokkrum stöðum. Hafist var handa um byggingu nýs skólahúss eftir teikningu Einars Erlendssonar byggingameistara í Reykjavík. Var húsið á annað ár í byggingu og því var skólastarfi haldið áfram veturinn 1911-1912 í Möllershús og nemendatala takmörkuð við húspláss þar. Urðu námsmeyjar 17 þann vetur. Kennsla hófst í nýja húsinu haustið 1912. Í skólahúsinu var vatnsleiðsla, skólpleiðsla, bað og vatnssalerni en hvorki miðstöð né rafmagn og kom fyrst árið 1927.
Fjárhagur skólans var oft erfiður og áttu sýslurnar fullt í fangi með að leggja skólanum til nægjanlegt fjármagn og afla styrkja. Áhugi manna á skólastarfinu var hvati til að klóra í bakkann og halda áfram. Metnaður var mikill til að reka faglega gott skólastarf svo að skólinn stæðist kröfur sem gerðar voru til góðrar menntastofnunar. Fór þó svo að mjög kreppti að vegna dýrtíðar á árunum 1916-1918 og ákveðið var að ekki væri unnt að halda uppi skólastarfi veturinn 1918-1919 vegna dýrtíðar og skorts á eldsneyti. Sýslurnar lögðu hart að sér að reisa skólann við aftur.
Árið 1923-1924 var skólanum breytt í eins vetrar húsmæðraskóla sem starfa skyldi í 9 mánuði. Var þá bóknámsgreinum fækkað, en áhersla aukin á verknám matreiðslu, sauma og vefnað. Bóknám var íslenska, reikningur og danska, uppeldis- heilsu- og næringarefnafræði, auk fyrirlestra í þjóðfélagsfræðum. Skólinn var rekinn með þessu sniði fram yfir 1970. Ýmsar breytingar urðu á námsgreinum gegnum tíðina t.d. var hætt að kenna dönsku og reikning, líklega milli 1940 og 1950, en bætt við námsgreinum eins og vefjarefnafræði, vöruþekkingu og heimilishagfræði.
Árið 1952 þótti sýnt að gera yrði gagngerar endurbætur á húsnæði skólans. Var þá ráðist í nýbyggingu með borðstofu og íbúð fyrir forstöðukonu. Eldhús og bakarí endurbætt og fleira. Auk þess keypt mikið af nýjum húsbúnaði. Fella þurfti niður skólastarf meðan á framkvæmdum stóð, þ.e. árið 1952-53 og hófst skólastarf aftur í janúar 1954. Þá var Hulda Stefánsdóttir ráðin að skólanum í annað sinn. Á árunum eftir 1970 urðu miklar breytingar á starfi húsmæðraskóla í landinu og aðsókn minnkaði. Nýjir möguleikar á fræðslu fyrir almenning og þjóðfélagslegar hræringar áttu þar stærstan hlut að máli.
Kvennaskólinn á Blönduósi fór ekki varhluta af þessari þróun, þrátt fyrir mikla uppbyggingu á sjöunda áratugnum en þá voru byggðir tveir kennarabústaðir. Kyndistöð með geymslum og vinnuaðstöðu og stór kennslustofa yfir svalir á 2.hæð. Sífellt dró úr aðsókn að skólanum. Á meðan ekki var fyrirséð hvernig mál þróuðust, reyndi mjög á starfslið skólans sem lagði sig fram um að finna nýjar leiðir er mættu verða til að auka aðsókn. T.d. var námskeiðahald all viðamikið, bæði löng og stutt námskeið haldin í matreiðslu, saumum, vefnaði og fleiru og nemendum gefinn kostur á hálfs vetrar námi með dvöl á heimavist.
Samstarf var tekið upp við Grunnskólann á Blönduósi og nemendur í gagnfræða- eða landsprófsdeild fengu skólavist í kvennaskólanum með valfög í verklegum greinum. Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika í rekstri skólans síðustu árin var reynslan af námskeiðum fyrir fólk í héraðinu mjög jákvæð og nutu þau mikilla vinsælda. U.þ.b. 400 manns sóttu þessi námskeið. Jafnframt því voru ætíð nemendur í heimavist, utan árið 1973-74. Haustið 1978 þótti fullreynt að ekki yrði áfram haldið stólastarfi og var þá skólinn lagður niður, ásamt flestum húsmæðraskólum landsins sem hættu um þetta leyti.
Alls munu um 2700 stúlkur hafa sótt nám í skólanum þessi 99 ár. auk þeirra fjölmörgu sem sóttu námskeið sem oft voru haldi á vorin en þó oft að vetrinum, sérstaklega síðustu árin. Flestar námsmeyjar komu úr Húnavatnssýslum, þá Skagfirðingar, Eyfirðingar, Múlsýslungar og Strandamenn. Námsmeyjar komu af öllu landinu. Síðustu árin voru margar af suðvesturhorninu. Skólanum fylgdi mikið líf og áhrif hans voru sannarlega mikil í héraðinu og eflaust víðar því að stúlkurnar báru með sér þekkingu sem þær sýndu í myndarskap hvar sem þær bjuggu. Mjög margar stúlkur efndu til kynna við Húnvetninga og urðu eftir í héraðinu er skóla lauk. Varð það til hagsbóta fyrir Húnvetninga, eða eins og menn sögðu gjarnan að gott væri að fá nýtt blóð. Enda urðu þessar stúlkur hinar bestu húsmæður og létu gott af sér leiða. Mikil eftirsjá var að skólanum og virtist umhverfið dauft og litlaust þegar starfseminni lauk.
Tekið úr minningarriti kvennaskólans 1879-1939, úr skólaskýrslum kvennaskólans 1920-78.
Aðalbjörg Ingvarsdóttir.
-
Sigríður Jóhannsdóttir
Sigríður Jóhannsdóttir er fædd 1948. Hún stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1967 - 1969 og við Statens Lærerskole i Forming í Oslo 1969 - 1970. Einnig sótti Sigríður námskeið í damaskvefnaði í Turku, Finnlandi 1972 og námskeið í vefnaði og listvefnaði í Svíþjóð, Noregi, Danmörk á nokkrum árum. Eftir að Sigríður kom heim frá námi var hún kennari við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1970 - 1975 en hún hefur verið aðstoðarmaður Leifs Breiðfjörðs við gerð steindra glugga frá 1971. Leifur Breiðfjörð er eiginmaður Sigríðar.
Sigríður starfaði í sýninganefnd Textílfélagsins 1980 - 82 og á sama tíma var hún að vinna vegna Scandinavian Today. Hún var í stjórn Listvinafélags Hallgrímskirkju 1984 - 89, 1994 - 1999, í stjórn Listasafns Hallgrímssafns frá stofnun 1996 - 99 og var í stjórn Kirkjulistahátiðar frá 1996 - 98. Sigríður hefur haldið nokkrar einkasýningar hér á landi og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hér á landi sem erlendis á undanförnum áratugum. Sigríður er stofnfélagi í Textílfélagi Íslands og er einnig meðlimur í Sambandi Íslenskra Myndlistarmanna. Veflistaverk Sigríðar prýða margar opinberar byggingar og kirkjur til að mynda: Kapellu Kvennadeildar Landsspítalans, Verkmenntaskólann á Akureyri, Fossvogskapellu, Hallgrímskirkju, Viðeyjarkirkju, Kapellu Dvalarheimilisins Hrafnistu í Hafnarfirði, Dómkirkjuna í Reykjavík, Hóladómkirkju og fleiri.
Sigríður Jóhannsdóttir og maður hennar, Leifur Breiðfjord, hafa unnið í samvinnu að myndvefnaðar verkum og ofnum kirkjulistaverkum síðan 1978 þar sem Leifur sér um teikninguna en Sigríður myndvefur eða damaskvefur verkin. Þau hafa haldið fimm einkasýningum með myndvefnaði, tekið þátt í mörgum samsýningum textíllistamanna hérlendis og erlendis og hannað í sameiningu presta hempur og altarisdúka fyrir nokkrar kirkjur á Íslandi.
-
Sigrún P. Blöndal (1883 - 1944)
Sigrún Pálsdóttir Blöndal fæddist á Hallormsstað 1883. Hún var dóttir Páls Vigfússonar og Elísabetar Sigurðardóttur. Faðir hennar fæddist að Ási í Fellum árið 1851. Hann var góður námsmaður og lauk prófi í heimspeki við háskólann í Kaupmannahöfn. Hann hugðist ætla að halda áfram námi en faðir hans lést og í kjölfarið ákvað Páll að það væri skylda sín að flytja aftur heim til Íslands og taka við búinu. Móðir Sigrúnar fæddist að Desjamýri í Borgarfirði árið 1846. Þrettán árum seinna flutti hún á Hallormsstað. Hún var mikill bókaormur og unni sagnafróðleik, ættfræði og skáldskap.
Vorið 1880 gengu foreldar Sigrúnar í það heilaga. Elísabet tók það fram að hún ætlaði ekki að taka þátt í heimilisverkum enda lítt hrifin af búskap og meira fyrir bækurnar. Páll sinnti aftur á móti búinu vel á Hallormsstað og var talinn vera afburða góður bóndi. Páll var einn af stofnendum blaðs sem kom út á Austurlandi og bar heitið Austri. Hann dó árið 1885 ungur að árum. Þá tók Elísabet við búinu og stýrði því ásamt stjúpmóður Páls, Guðríði, í tuttugu ár.
Fljótlega eftir fráfall Guðríðar flutti Elísabet til barna sinna. Hún bjó fyrst hjá Guttormi, einkabróður Sigrúnar sem var ári yngri en hún og síðar hjá Sigrúnu. Elísabet lést árið 1827 (Eiríkur Sigurðsson, 1978).Ævi Sigrúnar í hnotskurn
Þegar hún var sautján ára gömul, um aldamótin 1900, flutti hún til Reykjavíkur til að stunda nám við Kvennaskólann. Það tók hana aðeins eitt ár að klára skólann. Eftir námið hélt hún aftur til Hallormsstaðar.
Sigrúnu þyrsti í meiri lærdóm og leitaði yfir landsteinana til að fullnægja þeim þörfum. Hún fór til Kaupmannahafnar sumarið 1905 á sumarnámskeið í heimilisiðnaði. Vorið 1911 fór hún síðan aftur til Danmerkur til að stunda tveggja ára nám í lýðháskólanum í Askov. Þar stundaði hún nám ásamt sjö öðrum Íslendingum. Sigrún nýtti dvölina vel og lá yfir bókum þegar tækifæri gafst. Hún fór einnig á vefnaðarnámskeið og eftir að hún kom heim hélt hún mörg slík námskeið, bæði á Suður- og Austurlandi. Sigrún hafði ætíð verið hugfangin af íslenskum heimilisiðnaði og átti stóran þátt í að endurvekja hann á sínum tíma.
Árið 1918 giftist Sigrún Benedikt Blöndal. Þau voru talin passa ákaflega vel fyrir hvort annað enda bæði með mikinn áhuga á þjóðmálum, menntun og uppeldi. Benedikt var kennari við Búnaðarskólann á Eiðum. Árið 1919 var hins vegar stofnaður Alþýðuskóli á Eiðum og kenndu þau hjónin bæði þar hinar ýmsu greinar. Sumarið sama ár kynntu þau sér skólamál á Norðurlöndum til að undirbúa komu nýs skóla. Þar heilluðust þau af stefnu Lýðháskólans, sem var kennsla í formi fyrirlestra, enda voru þau ekki hlynnt þurru bóknámi. Sigrún notaði tækifærið í ferðinni og kynnti sér vefnað og annan heimilisiðnað.
Í Alþýðuskólanum á Eiðum kenndi Sigrún dönsku auk handavinnu. Ákveðið var að halda sumarnámskeið og var hjónunum falið að sjá alfarið um það verkefni. Hægt var að læra flest allt sem tengdist garðrækt, auk þess sem Sigrún tók nemendur í kennslustund í handavinnu.
Árið 1924 ákváðu þau að hætta að kenna á Eiðum eftir fimm ára dvöl þar. Ástæðan fyrir því var að Lýðháskólarnir sem þau höfðu kynnst í Danmörku á sínum tíma voru mun sveigjanlegri en skólinn á Eiðum. Þeim líkaði ekki stefnan sem var tekin á Eiðum og ákváðu að hætta. Í kjölfar brottfarar þeirra hjóna urðu mikil leiðindi og blaðaskrif á milli þeirra og skólastjórans á Eiðum.
Sigrún hafði erft jörðina í Mjóanesi og fluttu þau þangað. Þau ákváðu að stofna annan skóla og byrjuðu á því að byggja skólastofu við gamla bæinn í Mjóanesi. Um haustið var svo starfræktur unglingaskóli með átta nemendum. Flestir nemendanna höfðu elt þau frá Eiðum enda voru bæði Sigrún og Benedikt eftirsóknarverðir kennarar. Fyrst um sinn var skólinn bæði fyrir drengi og stúlkur en síðar var hann eingöngu fyrir stúlkur. Honum var breytt í nokkurs konar húsmæðraskóla sem síðar var fyrirmynd Húsmæðraskólans á Hallormsstað. Nemendur og starfsfólk skólans í Mjóanesi voru eins og ein stór fjölskylda, allir voru jafnir og góðir vinir. Hjónin héldu fyrirlestra um merka menn tvisvar til þrisvar sinnum í viku og einu sinni í viku var kvöldvaka en þá las Benedikt fyrir fólkið upp úr hinum ýmsu bókum.
Eftir sex ára dvöl í Mjóanesi ákváðu þau að snúa sér að öðrum verkefnum. Það var draumur Sigrúnar að stofna Húsmæðraskóla á Austurlandi því í hinum þremur landsfjórðungunum var húsmæðraskóli til staðar. Hjónin voru virk í félagsmálum sem fyrr og Sigrún varð gerð að formanni Sambands austfirskra kvenna og Benedikt sat í stjórn Búnaðarsambands Austurlands. Bæði þessi félög, einkum þó Kvennasambandið tók mikinn þátt í að koma á fót Húsmæðraskóla á Hallormsstað.
Sumarið 1929 var för Sigrúnar heitið á Laugar í Reykjadal í Suður - Þingeyjasýslu til að vera viðstödd sambandsfund norðlenskra kvenna. Fjöldi fólks mætti til að hlusta á Sigrúnu halda erindi um heimilisiðnað, því hún var dáð fyrir mælsku sína. Þetta sama sumar ferðaðist hún til fimm hreppa á landinu til að tala um heimilisiðnað og sýningu sem tilheyrði honum og átti að vera úr öllum Austurlandsfjórðungi. Sýningin var hálfgerð upphitun fyrir Landssýninguna sem átti að vera í Reykjavík árið eftir. Á þeirri sýningu var Sigrún dómari í handavinnu (Eiríkur Sigurðsson, 1978).
Sigrún átti góða vinkonu sem hét Halldóra Bjarnadóttir. Halldóra ritstýrði blaðinu Hlín sem var ársrit íslenskra kvenna. Sigrún samdi kennslubók í vefnaði sem fylgdi Hlín ókeypis frá árunum 1932 til 1944. Halldóra og Sigrún fóru saman til útlanda árið 1934 á þing norrænna heimilisiðnaðarfélagsins sem haldið var í Finnlandi. Þær komu einnig við í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.
Sigrún gerðist umboðsmaður Máls og Menningar á Upphéraði árið 1937. Rithöfundurinn Halldór Kiljan Laxness kunningi hennar og maður sem hún dáði mjög, var í stjórn félagsins og má ætla að hún hafi tekið því boði að gerast umboðsmaður glöðu geði. Sigrún sótti þriðja Landsþing kvenna og færði fram mikilvægar hugmyndir og tillögur. Árið 1943 hélt Sigrún magnþrungna ræðu um íslenskar bókmenntir fyrr og nú á Landsþingi kvenfélagssambands Íslands (Halldóra Bjarnadóttir, 1970).Sigrún og Benedikt eignuðust tvö börn. Dóttur sem andaðist nýfædd og Sigurð sem fæddist 3. nóvember 1924 á Mjónesi. Sigurður tók cand. Phil próf á Íslandi og hélt svo til Noregs til að stunda skógræktarnám. Árið 1955 var hann skipaður skógarvörður á Hallormsstað og er almennt talið að honum hafi tekist mjög vel upp með skóginn. Sigrún og Benedikt ólu auk þess upp tvo fóstursyni. Þá Tryggva Blöndal sem var hálfbróðir Benedikts og Skúla Magnússon sem síðar varð garðyrkjubóndi í Laugarási í Biskupstungum. Hjónin voru ákaflega samrýmd alla tíð. Það var mikið áfall fyrir alla á Hallormsstað þegar Benedikt Blöndal lést þann 9. janúar 1939. Hann var ekki nema 56 ára gamall. Hann hafði verið á ferðalagi í Suður Múlasýslu. Mikil ófærð var og ekki fært nema á skíðum. Hann var á heimleið en sökum veðurs varð hann úti. Sigrún var sterk og ákveðin í að láta ekki deigan síga og hélt ótrauð áfram með uppbyggingu Húsmæðraskólans. Þann 26. nóvember 1944 veiktist Sigrún skyndilega og lést þann tveimur dögum seinna (Eiríkur Sigurðsson, 1979).
Húsmæðraskólinn á Hallormsstað
Þann 1. nóvember 1930 var Húsmæðraskólinn á Hallormsstað settur í fyrsta sinn þó að skólahúsið væri ekki fullbyggt. Sigrún var ráðin forstöðukona skólans og eiginmaður hennar, Benedikt Blöndal, ráðinn aukakennari. Á honum hvíldi þó líka allt utan húss, viðhald á landi og ræktun búfés. Skólanum var skipt í tvær deildir. Sigrúnu fannst nauðsynlegt að stelpurnar fengju næga menntun í skólanum, en jafn misjafnlega og þær voru undir skólann búnar eins og barnaskólanámi þeirra var háttað. Þess vegna fannst henni mikilvægt að hann væri tveggja vetra.
Í hverri viku voru flutt fjögur erindi bæði fyrir yngri og eldri deild skólans. Þar sinntu þau hjónin kennslunni til jafns. Sigrún flutti tvo fyrirlestra um bókmenntir og Benedikt tvo um merka atburði í sögu þjóðarinnar fram að siðabót og einnig um menningu. Skóladagurinn hófst ávallt klukkan átta á því að sunginn var sálmur og hann endaði einnig á því klukkan tíu að kvöldi. Sigrún var mjög trúuð og þann þátt vildi hún hafa með í sínu uppeldisstarfi, hún las húslestur alla sunnudaga klukkan ellefu en undantekning var gerð á því á páskadag en þá voru allir vaktir klukkan sex í lestur (Gísli Kristjánsson, 1979).
Frá fyrsta sálmasöng dagsins til hins síðasta fóru fram alls kyns athafnir. Nemendur gátu valið á milli alls kyns verklegra námskeiða. Með þessum námskeiðum átti að hjálpa ungum stúlkum að læra hagnýta hluti áður en þær byrjuðu búskap. Þar var til dæmis kennd matreiðsla, garðyrkja, saumur og vefnaður. Daglegir hættir voru þó þeir að dagurinn hófst á sálmasöng, eftir hann fóru nemendur yngri deilda til ræstinga á meðan nemendur eldri deildar fóru í bóklega tíma. Eftir morgunverð voru bóklegir tímar hjá yngri deild og matreiðsla hjá þeirri eldri til tólf. Eftir það tók við handavinnukennsla hjá yngri deildinni á meðan eldri deildin lauk við eldhúsverkin og bóklega tíma. Seinni part dags tók við kaffi og útivera. Sigrúnu var mikið í mun að nemendur færu út að viðra sig í einhvern tíma yfir daginn til, að hreyfa sig og herða. Eftir það tók við handavinna í klukkustund en síðan tók við sameiginlegur fyrirlestur fyrir báðar deildir. Kvöldverður var borðaður klukkan sjö og dagskránni lauk síðan klukkan tíu með sálmasöng og síðan var gengið til rekkju.
Haldnar voru kvöldvökur þrisvar sinnum í viku þar sem kennarar skiptust á að lesa upphátt fyrir heimilisfólk upp úr úrvalsbókmenntum, íslenskum sem þýddum og hvers konar skáldskap. Á meðan lestrinum stóð sátu nemendur við hannyrðir. Með kvöldvökunum var verið að endurvekja gamla menningarhætti sem var svipuð tilhögun og í baðstofum á fjölmennum sveitaheimilum.
Sigrún hafði fengið þá hugmynd að gera skólann að eins konar heimili fyrir starfsfólk og nemendur. Sú hugmynd varð að veruleika með stofnun Húsmæðraskólans því þó hann væri heimavistarskóli var hann ekki þessi dæmigerði heimavistarskóli. Í raun var hann stórt heimili þar sem nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn bjuggu saman og sáu um heimilishaldið. Burðarásinn að menningu bændaþjóðfélags á Íslandi var þess konar heimili. Fyrirmyndin að þessu var að einhverju leyti það heimili sem Sigrún sjálf ólst upp við á Hallormsstað. Sigrún og Benedikt höfðu hrifist mjög af kennsluaðferðum dönsku lýðháskólanna, en það fól í sér kennslu í formi fyrirlestra sem var menntandi og mótandi.Fyrstu þrjú ár skólans var aðsókn mjög treg. Nemendur voru oftast ekki fleiri en 15-20. Þetta voru erfið kreppuár í landinu og skorti stúlkur fé til að geta stundað nám við skóla í tvo vetur. Skólaárið 1933-34 var skólinn fullskipaður en þá voru 30 nemendur, 20 í yngri deild og 10 í eldri. Frá 1933 var skólinn vel sóttur á meðan Sigrúnar naut við. Síðasta veturinn sem hún var við stjórnvölinn, árið 1943-44 voru 25 nemendur í skólanum. Verklegu námskeiðin voru vel sótt og eiga margar stúlkur, sem stunduðu nám við skólann, honum mikið að þakka.
Árið 1943 tók til starfa við skólann sérstök vefnaðarkennaradeild. Stofnun þessarar deildar hafði lengi vel verið mikið áhugamál Sigrúnar. Þetta var tveggja vetra nám og voru teknar inn tvær stúlkur í senn. Fyrsta brautskráningin frá þessari deild var árið 1945 og var önnur þeirra útskrifuðu Guðrún Vigfúsdóttir veflistakona, sem hefur starfrækt vefstofu á Ísafirði við góðan orðstír (Eiríkur Sigurðsson, 1978).Lokaorð
Það má með sanni segja að Sigrún hafi verið frumkvöðull á sínu sviði og má segja að starf hennar hafi verið markviss byrjun á endurreisn íslensks heimilisiðnaðar. Hún var mikil menntakona sem eflaust ófáir litu upp til og hafði gott færi á að mennta sig, bæði hér heima og erlendis. Henni tókst að framfylgja draumum sínum og gerði það vel. Sigrúnu var líst sem skapstórri konu og stóryrtri og hún hélt uppi miklum aga. Það eru án efa góðir kostir sem gott er að hafa til að ná langt í sínu fagi líkt og Sigrún gerði.
Heimildaskrá
Sigrún var lánsöm að fá í vöggugjöf gáfur foreldra sinna og áhuga á menntun. Móðir hennar, sem eins og áður sagði var mikill bókaormur, var dugleg að lesa fyrir og með Sigrúnu. Á unglingsárum var Sigrún farin að lesa meira krefjandi efni og gat lesið bækur á hinum ýmsu tungumálum, til að mynda dönsku, ensku og þýsku. Hún lærði líka nokkuð í frönsku en var ekki eins sleip í henni og hinum tungumálunum.Halldóra Bjarnadóttir. (1970). Sigrún P. Blöndal. Heima er bezt, bls. 69 – 72.
Eiríkur Sigurðsson. (1978). Af héraði og úr fjörðum. Reykjavík: Bókfell
hf. [bls. 11 – 38]
Sigurður Blöndal. (1979). Sigrún Pálsdóttir Blöndal. Í Gísli Kristjánsson (Ritstj.)
Móðir mín húsfreyjan, 187 – 220. Reykjavík: Bókfell hf.
Upp -
Solveig Arnórsdóttir
Solveig Arnórsdóttir var fædd 25. maí 1928 í Laugaskóla í Reykjadal, S-Þingeyjarsýslu, dóttir hjónanna Arnórs Sigurjónssonar fyrsta skólastjóra Alþýðuskólans á Laugum og Helgu Kristjánsdóttur kennara við skólann. Solveig ólst upp í Reykjadalnum til 7 ára aldurs en þá flutti hún með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur. Hún var þó alltaf í sveit á sumrin, fyrst hjá afa sínum Sigurjóni Friðjónssyni á Litlu-Laugum en síðan í Höfða í Mývatnssveit í þrjú sumur.
Solveig gekk í Miðbæjarskólann, en var síðan einn vetur í Mýrarhúsaskóla og annan í Ingimarsskólanum eftir að foreldrar hennar keyptu Lambastaði á Seltjarnarnesi. Aftur fluttist fjölskyldan norður í Þingeyjarsýslu 1942 en þá keyptu þau Arnór og Helga jörðina Þverá í Fnjóskadal og kenndi Solveig sig lengi við þann bæ. Hún tók gagnfræðapróf frá M.A. vorið 1945 og var síðan í Húsmæðraskólanum á Laugum veturinn 1946-1947, en móðir hennar Helga var í forystusveit þeirra kvenna sem börðust fyrir því að sá skóli væri stofnaður og sat hún einnig lengi í stjórn hans. Solveig varð stúdent frá M.A. 1951 og þá um haustið hélt hún til Svíþjóðar til elstu systur sinnar Steinunnar, sem þar bjó og var gift sænskum manni.
Solveig fékk inngöngu í vefnaðarkennaraskólann ,,Handarbetets Vänners Vävskola“ í Stokkhólmi en ,,Handarbetets Vänner“ var margþætt sjálfseignastofnun sem stóð á gömlum merg og naut virðingar sem slík. Skólinn var til húsa í stórri og reisulegri byggingu sem stóð á fögrum stað í Djurgården, beint á móti ,,Skansen“. Sybylla Svíaprinsessa var verndari skólans og kom hún einu sinni í heimsókn á meðan Solveig var þar við nám. Nær öll starfsemi í byggingunni tengdist á einn eða annan hátt ,,Handarbetets Vänner“. Á efstu hæðinni voru geysistórir vefstólar, þar sem ofnar voru mottur af ýmsum gerðum, á annarri hæð var setið við saumaskap á ýmis konar kirkjulist og þarna var a.m.k. einn landsþekktur hönnuður til húsa og umsjónarkennari skólans bjó þar einnig. Í húsinu var einnig sýningarsalur og lítill og notalegur smárétta- og kaffiveitingastaður þar sem ofin línteppi héngu á kölkuðum veggjunum.
Vefnaðarkennaraskólinn var á 4ðu hæð hússins. Þar var hátt til lofts og vítt til veggja. Milli hæða lágu slitnar og mikið gengnar steintröppur. Náminu við skólann var skipt í 4 annir og voru um 8 stúlkur teknar inn á hverja önn, þannig að milli 30 og 40 stúlkur voru að jafnaði í skólanum í einu. Solveig byrjaði í skólanum 1. febrúar 1952 en útskrifaðist með kennararéttindi þaðan rétt fyrir jólin 1953. Í upphafi næstu annar eftir að Solveig hóf námið, byrjaði Sigríður Halldórsdóttir þar einnig nám, sú mæta vefnaðarkona og kennari. Urðu þær Solveig og hún góðar vinkonur og deildu þær leiguhúsnæði saman á meðan báðar voru við skólann og hélst með þeim góður vinskapur alla tíð síðan.
Vera Solveigar við ,,Handarbetets Vänners Vävskola“ skipaði sérstakan sess í lífi hennar. Fornir siðir og nýir straumar ófust þar saman og settu mark sitt á nám og námsmeyjar. Samskipti kennara og nemenda voru formleg og gjarnan í 3ju persónu og ávörpin ,,fröken“ og ,,fru“ notuð eftir aðstæðum og virðingarstigum. Nákvæmni og stundvísi voru í hávegum höfð og hangs eða slóðaháttur ekki liðinn. Margt var nýstárlegt fyrir námsmey ofan af Íslandi, en eftir örlitla byrjunarörðugleika vandist það allt. Námsmeyjarnar sem voru með Solveigu á önn voru allar af landsbyggðinni, flestar voru þær með ígildi gagnfræðaskólamenntunar og höfðu allnokkra reynslu af vefnaði. Hópurinn náði vel saman og Sigríður Halldórsdóttir slóst oft í hópinn og var oft til hennar leitað með aðstoð við eitt og annað sem að vefnaði laut. Solveig stóð í bréfasambandi við tvær skólasystranna (Astrid Axelsson og Ingrid Matsson) alla þeirra ævi, en þær unnu við vefnað alla sína starfsæfi.
Sænski vefnaðurinn var um margt ólíkur því sem Solveig hafði lært á Laugum í Reykjadal, sérstaklega hvað varðaði litaval. Á Laugum var mest unnið með íslenskt kambgarn frá Álafossi og Gefjun, en það kambgarn á reyndar lítið annað sameiginlegt með því kambgarni sem nú fæst, annað en nafnið og það að það er spunnið hér á landi. Einnig var ofið úr loðbandi og einspinnu (einbandi). Sömuleiðis var unnið úr svokölluðum tvisti eða bómullargarni. Jurtalitað band var í hávegum haft, oft ofið í dökkan grunn, en þó einnig stundum í ljósan. Mun meiri léttleiki var yfir sænska vefnaðinum en þeim íslenska, bjartir og skærir litir notaðir umfram þá dökku. Í skólanum lærði Solveig einnig að vinna í hör og ,,cottólín“ ( sem er blanda af baðmull og hör) og fleiri gerðum garns.
Löng og fjölbreytt vefnaðarhefð er í Svíþjóð, en einnig þó nokkur nýsköpun, sem námsmeyjar við skólann tóku þátt í og nutu góðs af. Framleiðendur vefnaðarvöru sýndu nemendasýningum áhuga í leit sinni af nýjum mynstrum og hugmyndum. Ein af samnemendum Solveigar seldi m.a. einum áklæðaframleiðanda mynstur, sem síðan var notað til framleiðslu áklæðis.
Eftir að Solveig kom heim frá námi í Svíþjóð hóf hún störf sem vefnaðarkennari við Kvennaskólann á Blönduósi haustið 1954. Þá var skólastýra við skólann, frú Hulda Á. Stefánsdóttir og stýrði hún skólanum allan þann tíma sem Solveig starfaði við hann. Hún kenndi við skólann fram á vorið 1962, en Bryndís Guðmundsdóttir leysti hana af að hluta til veturinn 1960-1961. Fyrsta vetur Solveigar í kennslu gætti sænsku áhrifanna hvað mest varðandi efnisval og liti, smám saman blönduðust áhrifin frá Laugum og aðrir íslenskir straumar inn í kennsluna. Vefnaðarkennslunni hagaði að mestu þannig að stúlkurnar völdu með aðstoð Solveigar þau verkefni sem þær unnu að (ófu) og má þar nefna veggteppi, mottur, dregla, værðarvoðir og sjöl. Áhersla var lögð á að stúlkurnar næðu nokkurri færni í uppsetningu á vefjum í vefstólana og útbjó Solveig einfaldar leiðbeiningar í fjölriti handa þeim til eignar. Hún lagði áherslu á að námsmeyjar hennar sæktu sér mynstur og fyrirmyndir sem víðast við vefinn og voru þar mest áberandi sænsk, norsk og íslensk mynstur og áhrif. Solveig naut sín vel við kennsluna á Blönduósi enda námsmeyjar almennt mjög áhugasamar um vefnaðinn.
Eftir að Solveig hætti að kenna á Blönduósi lagði hún vefnaðinn að mestu til hliðar, þótt vefstóll stæði stundum uppi í einu herbergjanna á heimili hennar. Þó má geta þess að hún óf m.a. gólfdregil fyrir Þingeyrarkirkju að beiðni frú Huldu Stefánsdóttur veturinn 1962-1963, en hann óf hún úr teppabandi frá Álafossi og var hann ofinn með rósabragðsröndum. Þá sinnti Solveig einnig prófdómarastarfi við skólann eftir að hún hætti kennslu við hann. Sömuleiðis var hún prófdómari í nokkra vetur á húsmæðraskólanum á Löngumýri í Skagafirði og fékk þá stundum að grípa í vefstól þar og vefa.
Á meðan Solveig var við kennslu á Blönduósi, kynntist hún Halldóri Hafstað bónda í Vík í Skagafirði og síðar eftir að þau giftust fluttu þau í nýbýlið Útvík þar sem þau ráku kúabú með meiru. Solveig tók að sér handavinnukennslu stúlkna í Barnaskóla Staðarhrepps í nokkur ár og haustið 1970 hóf hún handavinnukennslu við Barnaskóla Sauðárkróks (nú Árskóla) og var við það starf í 7 vetur, en eftir það vann hún við kennslu yngri barna og sérkennslu allt til ársins 1995.
Solveig tók um tíma allmikinn þátt í félagsstörfum ýmsum. Hún var mikil kvenfélagskona og var m.a. formaður Sambands skagfirskra kvenna 1983-1989. Í hreppsnefnd Staðarhrepps sat hún 2 kjörtímabil og var hreppstjóri hreppsins 1988-1992. Solveig sat einnig í skólanefndum og fræðslunefndum um tíma. Einnig tók Solveig ásamt Halldóri virkan þátt í starfi Skógræktarfélags Skagafjarðar.
Solveig og Halldór stunduðu búskap í Útvík þar til Árni sonur þeirra tók við búi 1994, en þau fluttust að Dýjabekk árið 1993, húsi sem þau reistu í skógrækt úr landi Útvíkur og bjuggu þar allt þar til árið 2019 þegar þau fluttu að Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki þar sem þau búa nú. Auk Árna eiga þau Solveig og Halldór dæturnar Ingibjörgu og Ingunni Helgu og soninn Arnór.