Kvennaskóli Húnvetninga was founded in 1879 in Undirfell, Vatnsdalur valley and operated for almost 100 years.
Engar vörur fundust fyrir framleiðanda
Vefnaðarmunstur og uppskriftir sem eru í gagnagrunninum eru frá 1961 - 1972. Um er að ræða eina handskrifaða stílabók, sem er í eigu Vina Kvennaskólans á Blönduósi en í henni eru yfir 100 bindimunstur og uppskriftir.
Kvennaskóli Húnvetninga.
Kvennaskóli Húnvetninga var stofnaður árið 1879 og hóf starfsemi á Undirfelli í Vatnsdal. Upphafs- og forgöngumaður að stofnun skólans var Björn Sigfússon frá Undirfelli, síðar bóndi og alþingismaður á Kornsá. Björn var um þetta leyti ungur maður og hafði dvalið erlendis. Hefur eflaust kynnst straumum og stefnum í skólamálum þar. Honum fannst nauðsynlegt að konur ættu þess kost að afla sér menntunar, en áður höfðu efnabændur sent syni sýna í skóla en dæturnar biðu þess að giftast. Um það leyti sem Björn fór að vinna að skólamálunum voru stofnaðir þrír skólar fyrir konur, Kvennaskólinn í Reykjavík, stofnaður 1874, Laugalandsskóli og Kvennaskóli Skagfirðinga árið 1877.
Safnað var áheitum hjá hreppunum um framlag til skólans og var því vel tekið. Auk þess fór fram söfnun til styrktar nemendum. Séra Hjörleifur Einarsson á Undirfelli tók skólann inn á heimili sitt fyrsta starfsárið og kenndi bóklegar greinar. Björg Schou frænka Hjörleifs ung stúlka, kenndi allar verklegar greinar og fórst vel. Fimm stúlkur sóttu nám átta vikur í senn og voru kennslutímabil þrjú á vetrinum. Næstu tvö árin starfaði skólinn á Lækjarmóti í Víðdal og var Elín Briem ráðin forstöðukona. Fjórða starfsár skólans var hann fluttar að Ytri-Ey. Þar var keypt húsnæði og jarðarpartur og þar var skólinn rekinn í 18 ár.
Árið 1880 tók sýslunefnd Húnavatnssýsna að sér rekstur skólans í samvinnu við sýslunefnd Skagafjarðarsýslu. Sótt var um styrki í jafnaðarsjóði amtsins og landssjóð. Samin var skipulagsskrá og reglugerð fyrir skólann. Fyrstu tvö árin var árlegur styrkur, er Eyjaskólinn fékk úr landssjóði kr. 800,00. Árið 1885 var styrkurinn hækkaður upp í kr. 1.000,00 og 1887 upp í kr. 1.200,00. Gjöldin voru laun kennslukvenna og ráðskonu, munir- og kennsluáhöld, kostnaður við stjórn skólans, matværi, eldsneyti, ljósmeti o.fl.
Er skólinn var fluttur að Ytri-Ey urðu kennslutímabil tvö á tímabilinu 1. október til 15. maí. Skólanum var skipt í bekki, fyrsta og annan bekk og handavinnudeild. Próf voru haldin í öllum greinum og prófdómarar skipaðir til að dæma prófin. Í húsinu á Ytri-Ey var rúm fyrir 20 stúlkur í senn að kennslukonum meðtöldum. Námsgreinar sem kenndar voru á Ytri-Ey, voru nokkru fleiri en verið höfðu í skólum Húnvetninga og Skagfirðinga. Kennt var: Skrift, réttritun, reikningur, landafræði, Íslandssaga, mannkynssaga, danska, söngur, fatasaumur, útsaumur og ýmsar hannyrðir aðrar, þvottur og matreiðsla. Í fyrstu sóttu stúlkur úr Húnvatns- og Skagafjarðarsýslum fyrst og fremst skólann en fljótt fór svo mikið orð af skólanum í höndum Elínar Briem að orðstír hans barst um allt land og umsóknir bárust úr öllum landshlutum, þó flestar af Austurlandi. Af Eyjaskóla þótti það sannmæli sem fornkveðið var að öllum kom hann til nokkurs þroska.
Kennslubækur.
Við skriftarkennslu notaði Elín Briem útlend forskriftarblöð. Var sú skrift kölluð koparstunga. Höfðu námsmeyjar blöðin fyrir sér og æfðu sig við að skrifa eftir þeim. Rituðu margar þær, sem í Eyjaskóla lærðu, mjög fagra hönd. Elín Briem forstöðukona samdi Kvennafræðarann og gaf út. Var það handbók um matreiðslu, matargeymslu, saumaskap, prjón og margt annað. Varði Elín sumarfríum sínum til að rita bók þessa. Kom hún fyrst út 1888 og þá í þrjú þúsund eintökum. Seldist hún upp á skömmum tíma og var síðan endurprentuð þrem sinnum. Er Kvennafræðarinn talinn ein hin vinsælasta og jafnframt þarfasta bók, sem gefin hefir verið út fyrir konur á Íslandi. Í handavinnu var sérstök áhersla lögð á það að námsmeyjar lærðu að sníða og sauma fatnað, bæði á karla og konur. En auk þess voru kenndar ýmsar hannyrðir, svo sem ýmiskonar útsaumur, knippl, hekl, prjón og sitthvað annað.
Á sýslunefndarfundi 5.-10. mars 1900 var samþykkt að flytja kvennaskólann frá Ytri-Ey til Blönduóss og byggja nýtt skólahús. Á þessum tímamótum hættu Skagfirðingar þátttöku í rekstri skólans. Snorri Jónsson timburmeistari á Akureyri sá um byggingu skólahússins. Skólinn hófst í nýju húsi 1. október 1901 með 30 nemendur, en flestir munu nemendur hafa orðið 50 í húsinu.
Skólahúsið brennur.
Aðfaranótt 11. febrúar 1911 brann skólahúsið á Blönduósi. Fórst þar mikið af gögnum og eigur heimilisfólks. Nokkuð var af mat í útihúsi og bjargaðist úr brunanum. Studdi það að því að ákveðið var að halda uppi skólastarfinu út námstímann. Varð það úr að leigt var húsnæði í Tilraun, Templarahúsinu og Möllershúsi á Blönduósi. Auk þess var heimilisfólki komið fyrir í fæði á nokkrum stöðum. Hafist var handa um byggingu nýs skólahúss eftir teikningu Einars Erlendssonar byggingameistara í Reykjavík. Var húsið á annað ár í byggingu og því var skólastarfi haldið áfram veturinn 1911-1912 í Möllershús og nemendatala takmörkuð við húspláss þar. Urðu námsmeyjar 17 þann vetur. Kennsla hófst í nýja húsinu haustið 1912. Í skólahúsinu var vatnsleiðsla, skólpleiðsla, bað og vatnssalerni en hvorki miðstöð né rafmagn og kom fyrst árið 1927.
Fjárhagur skólans var oft erfiður og áttu sýslurnar fullt í fangi með að leggja skólanum til nægjanlegt fjármagn og afla styrkja. Áhugi manna á skólastarfinu var hvati til að klóra í bakkann og halda áfram. Metnaður var mikill til að reka faglega gott skólastarf svo að skólinn stæðist kröfur sem gerðar voru til góðrar menntastofnunar. Fór þó svo að mjög kreppti að vegna dýrtíðar á árunum 1916-1918 og ákveðið var að ekki væri unnt að halda uppi skólastarfi veturinn 1918-1919 vegna dýrtíðar og skorts á eldsneyti. Sýslurnar lögðu hart að sér að reisa skólann við aftur.
Árið 1923-1924 var skólanum breytt í eins vetrar húsmæðraskóla sem starfa skyldi í 9 mánuði. Var þá bóknámsgreinum fækkað, en áhersla aukin á verknám matreiðslu, sauma og vefnað. Bóknám var íslenska, reikningur og danska, uppeldis- heilsu- og næringarefnafræði, auk fyrirlestra í þjóðfélagsfræðum. Skólinn var rekinn með þessu sniði fram yfir 1970. Ýmsar breytingar urðu á námsgreinum gegnum tíðina t.d. var hætt að kenna dönsku og reikning, líklega milli 1940 og 1950, en bætt við námsgreinum eins og vefjarefnafræði, vöruþekkingu og heimilishagfræði.
Árið 1952 þótti sýnt að gera yrði gagngerar endurbætur á húsnæði skólans. Var þá ráðist í nýbyggingu með borðstofu og íbúð fyrir forstöðukonu. Eldhús og bakarí endurbætt og fleira. Auk þess keypt mikið af nýjum húsbúnaði. Fella þurfti niður skólastarf meðan á framkvæmdum stóð, þ.e. árið 1952-53 og hófst skólastarf aftur í janúar 1954. Þá var Hulda Stefánsdóttir ráðin að skólanum í annað sinn. Á árunum eftir 1970 urðu miklar breytingar á starfi húsmæðraskóla í landinu og aðsókn minnkaði. Nýjir möguleikar á fræðslu fyrir almenning og þjóðfélagslegar hræringar áttu þar stærstan hlut að máli.
Kvennaskólinn á Blönduósi fór ekki varhluta af þessari þróun, þrátt fyrir mikla uppbyggingu á sjöunda áratugnum en þá voru byggðir tveir kennarabústaðir. Kyndistöð með geymslum og vinnuaðstöðu og stór kennslustofa yfir svalir á 2.hæð. Sífellt dró úr aðsókn að skólanum. Á meðan ekki var fyrirséð hvernig mál þróuðust, reyndi mjög á starfslið skólans sem lagði sig fram um að finna nýjar leiðir er mættu verða til að auka aðsókn. T.d. var námskeiðahald all viðamikið, bæði löng og stutt námskeið haldin í matreiðslu, saumum, vefnaði og fleiru og nemendum gefinn kostur á hálfs vetrar námi með dvöl á heimavist.
Samstarf var tekið upp við Grunnskólann á Blönduósi og nemendur í gagnfræða- eða landsprófsdeild fengu skólavist í kvennaskólanum með valfög í verklegum greinum. Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika í rekstri skólans síðustu árin var reynslan af námskeiðum fyrir fólk í héraðinu mjög jákvæð og nutu þau mikilla vinsælda. U.þ.b. 400 manns sóttu þessi námskeið. Jafnframt því voru ætíð nemendur í heimavist, utan árið 1973-74. Haustið 1978 þótti fullreynt að ekki yrði áfram haldið stólastarfi og var þá skólinn lagður niður, ásamt flestum húsmæðraskólum landsins sem hættu um þetta leyti.
Alls munu um 2700 stúlkur hafa sótt nám í skólanum þessi 99 ár. auk þeirra fjölmörgu sem sóttu námskeið sem oft voru haldi á vorin en þó oft að vetrinum, sérstaklega síðustu árin. Flestar námsmeyjar komu úr Húnavatnssýslum, þá Skagfirðingar, Eyfirðingar, Múlsýslungar og Strandamenn. Námsmeyjar komu af öllu landinu. Síðustu árin voru margar af suðvesturhorninu. Skólanum fylgdi mikið líf og áhrif hans voru sannarlega mikil í héraðinu og eflaust víðar því að stúlkurnar báru með sér þekkingu sem þær sýndu í myndarskap hvar sem þær bjuggu. Mjög margar stúlkur efndu til kynna við Húnvetninga og urðu eftir í héraðinu er skóla lauk. Varð það til hagsbóta fyrir Húnvetninga, eða eins og menn sögðu gjarnan að gott væri að fá nýtt blóð. Enda urðu þessar stúlkur hinar bestu húsmæður og létu gott af sér leiða. Mikil eftirsjá var að skólanum og virtist umhverfið dauft og litlaust þegar starfseminni lauk.
Tekið úr minningarriti kvennaskólans 1879-1939, úr skólaskýrslum kvennaskólans 1920-78.
Aðalbjörg Ingvarsdóttir.