Engar vörur fundust fyrir framleiðanda
Sigrún Pálsdóttir Blöndal fæddist á Hallormsstað 1883. Hún var dóttir Páls Vigfússonar og Elísabetar Sigurðardóttur. Faðir hennar fæddist að Ási í Fellum árið 1851. Hann var góður námsmaður og lauk prófi í heimspeki við háskólann í Kaupmannahöfn. Hann hugðist ætla að halda áfram námi en faðir hans lést og í kjölfarið ákvað Páll að það væri skylda sín að flytja aftur heim til Íslands og taka við búinu. Móðir Sigrúnar fæddist að Desjamýri í Borgarfirði árið 1846. Þrettán árum seinna flutti hún á Hallormsstað. Hún var mikill bókaormur og unni sagnafróðleik, ættfræði og skáldskap.
Vorið 1880 gengu foreldar Sigrúnar í það heilaga. Elísabet tók það fram að hún ætlaði ekki að taka þátt í heimilisverkum enda lítt hrifin af búskap og meira fyrir bækurnar. Páll sinnti aftur á móti búinu vel á Hallormsstað og var talinn vera afburða góður bóndi. Páll var einn af stofnendum blaðs sem kom út á Austurlandi og bar heitið Austri. Hann dó árið 1885 ungur að árum. Þá tók Elísabet við búinu og stýrði því ásamt stjúpmóður Páls, Guðríði, í tuttugu ár.
Fljótlega eftir fráfall Guðríðar flutti Elísabet til barna sinna. Hún bjó fyrst hjá Guttormi, einkabróður Sigrúnar sem var ári yngri en hún og síðar hjá Sigrúnu. Elísabet lést árið 1827 (Eiríkur Sigurðsson, 1978).
Ævi Sigrúnar í hnotskurn
Þegar hún var sautján ára gömul, um aldamótin 1900, flutti hún til Reykjavíkur til að stunda nám við Kvennaskólann. Það tók hana aðeins eitt ár að klára skólann. Eftir námið hélt hún aftur til Hallormsstaðar.
Sigrúnu þyrsti í meiri lærdóm og leitaði yfir landsteinana til að fullnægja þeim þörfum. Hún fór til Kaupmannahafnar sumarið 1905 á sumarnámskeið í heimilisiðnaði. Vorið 1911 fór hún síðan aftur til Danmerkur til að stunda tveggja ára nám í lýðháskólanum í Askov. Þar stundaði hún nám ásamt sjö öðrum Íslendingum. Sigrún nýtti dvölina vel og lá yfir bókum þegar tækifæri gafst. Hún fór einnig á vefnaðarnámskeið og eftir að hún kom heim hélt hún mörg slík námskeið, bæði á Suður- og Austurlandi. Sigrún hafði ætíð verið hugfangin af íslenskum heimilisiðnaði og átti stóran þátt í að endurvekja hann á sínum tíma.
Árið 1918 giftist Sigrún Benedikt Blöndal. Þau voru talin passa ákaflega vel fyrir hvort annað enda bæði með mikinn áhuga á þjóðmálum, menntun og uppeldi. Benedikt var kennari við Búnaðarskólann á Eiðum. Árið 1919 var hins vegar stofnaður Alþýðuskóli á Eiðum og kenndu þau hjónin bæði þar hinar ýmsu greinar. Sumarið sama ár kynntu þau sér skólamál á Norðurlöndum til að undirbúa komu nýs skóla. Þar heilluðust þau af stefnu Lýðháskólans, sem var kennsla í formi fyrirlestra, enda voru þau ekki hlynnt þurru bóknámi. Sigrún notaði tækifærið í ferðinni og kynnti sér vefnað og annan heimilisiðnað.
Í Alþýðuskólanum á Eiðum kenndi Sigrún dönsku auk handavinnu. Ákveðið var að halda sumarnámskeið og var hjónunum falið að sjá alfarið um það verkefni. Hægt var að læra flest allt sem tengdist garðrækt, auk þess sem Sigrún tók nemendur í kennslustund í handavinnu.
Árið 1924 ákváðu þau að hætta að kenna á Eiðum eftir fimm ára dvöl þar. Ástæðan fyrir því var að Lýðháskólarnir sem þau höfðu kynnst í Danmörku á sínum tíma voru mun sveigjanlegri en skólinn á Eiðum. Þeim líkaði ekki stefnan sem var tekin á Eiðum og ákváðu að hætta. Í kjölfar brottfarar þeirra hjóna urðu mikil leiðindi og blaðaskrif á milli þeirra og skólastjórans á Eiðum.
Sigrún hafði erft jörðina í Mjóanesi og fluttu þau þangað. Þau ákváðu að stofna annan skóla og byrjuðu á því að byggja skólastofu við gamla bæinn í Mjóanesi. Um haustið var svo starfræktur unglingaskóli með átta nemendum. Flestir nemendanna höfðu elt þau frá Eiðum enda voru bæði Sigrún og Benedikt eftirsóknarverðir kennarar. Fyrst um sinn var skólinn bæði fyrir drengi og stúlkur en síðar var hann eingöngu fyrir stúlkur. Honum var breytt í nokkurs konar húsmæðraskóla sem síðar var fyrirmynd Húsmæðraskólans á Hallormsstað. Nemendur og starfsfólk skólans í Mjóanesi voru eins og ein stór fjölskylda, allir voru jafnir og góðir vinir. Hjónin héldu fyrirlestra um merka menn tvisvar til þrisvar sinnum í viku og einu sinni í viku var kvöldvaka en þá las Benedikt fyrir fólkið upp úr hinum ýmsu bókum.
Eftir sex ára dvöl í Mjóanesi ákváðu þau að snúa sér að öðrum verkefnum. Það var draumur Sigrúnar að stofna Húsmæðraskóla á Austurlandi því í hinum þremur landsfjórðungunum var húsmæðraskóli til staðar. Hjónin voru virk í félagsmálum sem fyrr og Sigrún varð gerð að formanni Sambands austfirskra kvenna og Benedikt sat í stjórn Búnaðarsambands Austurlands. Bæði þessi félög, einkum þó Kvennasambandið tók mikinn þátt í að koma á fót Húsmæðraskóla á Hallormsstað.
Sumarið 1929 var för Sigrúnar heitið á Laugar í Reykjadal í Suður - Þingeyjasýslu til að vera viðstödd sambandsfund norðlenskra kvenna. Fjöldi fólks mætti til að hlusta á Sigrúnu halda erindi um heimilisiðnað, því hún var dáð fyrir mælsku sína. Þetta sama sumar ferðaðist hún til fimm hreppa á landinu til að tala um heimilisiðnað og sýningu sem tilheyrði honum og átti að vera úr öllum Austurlandsfjórðungi. Sýningin var hálfgerð upphitun fyrir Landssýninguna sem átti að vera í Reykjavík árið eftir. Á þeirri sýningu var Sigrún dómari í handavinnu (Eiríkur Sigurðsson, 1978).
Sigrún átti góða vinkonu sem hét Halldóra Bjarnadóttir. Halldóra ritstýrði blaðinu Hlín sem var ársrit íslenskra kvenna. Sigrún samdi kennslubók í vefnaði sem fylgdi Hlín ókeypis frá árunum 1932 til 1944. Halldóra og Sigrún fóru saman til útlanda árið 1934 á þing norrænna heimilisiðnaðarfélagsins sem haldið var í Finnlandi. Þær komu einnig við í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.
Sigrún gerðist umboðsmaður Máls og Menningar á Upphéraði árið 1937. Rithöfundurinn Halldór Kiljan Laxness kunningi hennar og maður sem hún dáði mjög, var í stjórn félagsins og má ætla að hún hafi tekið því boði að gerast umboðsmaður glöðu geði. Sigrún sótti þriðja Landsþing kvenna og færði fram mikilvægar hugmyndir og tillögur. Árið 1943 hélt Sigrún magnþrungna ræðu um íslenskar bókmenntir fyrr og nú á Landsþingi kvenfélagssambands Íslands (Halldóra Bjarnadóttir, 1970).
Sigrún og Benedikt eignuðust tvö börn. Dóttur sem andaðist nýfædd og Sigurð sem fæddist 3. nóvember 1924 á Mjónesi. Sigurður tók cand. Phil próf á Íslandi og hélt svo til Noregs til að stunda skógræktarnám. Árið 1955 var hann skipaður skógarvörður á Hallormsstað og er almennt talið að honum hafi tekist mjög vel upp með skóginn. Sigrún og Benedikt ólu auk þess upp tvo fóstursyni. Þá Tryggva Blöndal sem var hálfbróðir Benedikts og Skúla Magnússon sem síðar varð garðyrkjubóndi í Laugarási í Biskupstungum. Hjónin voru ákaflega samrýmd alla tíð. Það var mikið áfall fyrir alla á Hallormsstað þegar Benedikt Blöndal lést þann 9. janúar 1939. Hann var ekki nema 56 ára gamall. Hann hafði verið á ferðalagi í Suður Múlasýslu. Mikil ófærð var og ekki fært nema á skíðum. Hann var á heimleið en sökum veðurs varð hann úti. Sigrún var sterk og ákveðin í að láta ekki deigan síga og hélt ótrauð áfram með uppbyggingu Húsmæðraskólans. Þann 26. nóvember 1944 veiktist Sigrún skyndilega og lést þann tveimur dögum seinna (Eiríkur Sigurðsson, 1979).
Húsmæðraskólinn á Hallormsstað
Þann 1. nóvember 1930 var Húsmæðraskólinn á Hallormsstað settur í fyrsta sinn þó að skólahúsið væri ekki fullbyggt. Sigrún var ráðin forstöðukona skólans og eiginmaður hennar, Benedikt Blöndal, ráðinn aukakennari. Á honum hvíldi þó líka allt utan húss, viðhald á landi og ræktun búfés. Skólanum var skipt í tvær deildir. Sigrúnu fannst nauðsynlegt að stelpurnar fengju næga menntun í skólanum, en jafn misjafnlega og þær voru undir skólann búnar eins og barnaskólanámi þeirra var háttað. Þess vegna fannst henni mikilvægt að hann væri tveggja vetra.
Í hverri viku voru flutt fjögur erindi bæði fyrir yngri og eldri deild skólans. Þar sinntu þau hjónin kennslunni til jafns. Sigrún flutti tvo fyrirlestra um bókmenntir og Benedikt tvo um merka atburði í sögu þjóðarinnar fram að siðabót og einnig um menningu. Skóladagurinn hófst ávallt klukkan átta á því að sunginn var sálmur og hann endaði einnig á því klukkan tíu að kvöldi. Sigrún var mjög trúuð og þann þátt vildi hún hafa með í sínu uppeldisstarfi, hún las húslestur alla sunnudaga klukkan ellefu en undantekning var gerð á því á páskadag en þá voru allir vaktir klukkan sex í lestur (Gísli Kristjánsson, 1979).
Frá fyrsta sálmasöng dagsins til hins síðasta fóru fram alls kyns athafnir. Nemendur gátu valið á milli alls kyns verklegra námskeiða. Með þessum námskeiðum átti að hjálpa ungum stúlkum að læra hagnýta hluti áður en þær byrjuðu búskap. Þar var til dæmis kennd matreiðsla, garðyrkja, saumur og vefnaður. Daglegir hættir voru þó þeir að dagurinn hófst á sálmasöng, eftir hann fóru nemendur yngri deilda til ræstinga á meðan nemendur eldri deildar fóru í bóklega tíma. Eftir morgunverð voru bóklegir tímar hjá yngri deild og matreiðsla hjá þeirri eldri til tólf. Eftir það tók við handavinnukennsla hjá yngri deildinni á meðan eldri deildin lauk við eldhúsverkin og bóklega tíma. Seinni part dags tók við kaffi og útivera. Sigrúnu var mikið í mun að nemendur færu út að viðra sig í einhvern tíma yfir daginn til, að hreyfa sig og herða. Eftir það tók við handavinna í klukkustund en síðan tók við sameiginlegur fyrirlestur fyrir báðar deildir. Kvöldverður var borðaður klukkan sjö og dagskránni lauk síðan klukkan tíu með sálmasöng og síðan var gengið til rekkju.
Haldnar voru kvöldvökur þrisvar sinnum í viku þar sem kennarar skiptust á að lesa upphátt fyrir heimilisfólk upp úr úrvalsbókmenntum, íslenskum sem þýddum og hvers konar skáldskap. Á meðan lestrinum stóð sátu nemendur við hannyrðir. Með kvöldvökunum var verið að endurvekja gamla menningarhætti sem var svipuð tilhögun og í baðstofum á fjölmennum sveitaheimilum.
Sigrún hafði fengið þá hugmynd að gera skólann að eins konar heimili fyrir starfsfólk og nemendur. Sú hugmynd varð að veruleika með stofnun Húsmæðraskólans því þó hann væri heimavistarskóli var hann ekki þessi dæmigerði heimavistarskóli. Í raun var hann stórt heimili þar sem nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn bjuggu saman og sáu um heimilishaldið. Burðarásinn að menningu bændaþjóðfélags á Íslandi var þess konar heimili. Fyrirmyndin að þessu var að einhverju leyti það heimili sem Sigrún sjálf ólst upp við á Hallormsstað. Sigrún og Benedikt höfðu hrifist mjög af kennsluaðferðum dönsku lýðháskólanna, en það fól í sér kennslu í formi fyrirlestra sem var menntandi og mótandi.
Fyrstu þrjú ár skólans var aðsókn mjög treg. Nemendur voru oftast ekki fleiri en 15-20. Þetta voru erfið kreppuár í landinu og skorti stúlkur fé til að geta stundað nám við skóla í tvo vetur. Skólaárið 1933-34 var skólinn fullskipaður en þá voru 30 nemendur, 20 í yngri deild og 10 í eldri. Frá 1933 var skólinn vel sóttur á meðan Sigrúnar naut við. Síðasta veturinn sem hún var við stjórnvölinn, árið 1943-44 voru 25 nemendur í skólanum. Verklegu námskeiðin voru vel sótt og eiga margar stúlkur, sem stunduðu nám við skólann, honum mikið að þakka.
Árið 1943 tók til starfa við skólann sérstök vefnaðarkennaradeild. Stofnun þessarar deildar hafði lengi vel verið mikið áhugamál Sigrúnar. Þetta var tveggja vetra nám og voru teknar inn tvær stúlkur í senn. Fyrsta brautskráningin frá þessari deild var árið 1945 og var önnur þeirra útskrifuðu Guðrún Vigfúsdóttir veflistakona, sem hefur starfrækt vefstofu á Ísafirði við góðan orðstír (Eiríkur Sigurðsson, 1978).
Lokaorð
Það má með sanni segja að Sigrún hafi verið frumkvöðull á sínu sviði og má segja að starf hennar hafi verið markviss byrjun á endurreisn íslensks heimilisiðnaðar. Hún var mikil menntakona sem eflaust ófáir litu upp til og hafði gott færi á að mennta sig, bæði hér heima og erlendis. Henni tókst að framfylgja draumum sínum og gerði það vel. Sigrúnu var líst sem skapstórri konu og stóryrtri og hún hélt uppi miklum aga. Það eru án efa góðir kostir sem gott er að hafa til að ná langt í sínu fagi líkt og Sigrún gerði.
Heimildaskrá
Sigrún var lánsöm að fá í vöggugjöf gáfur foreldra sinna og áhuga á menntun. Móðir hennar, sem eins og áður sagði var mikill bókaormur, var dugleg að lesa fyrir og með Sigrúnu. Á unglingsárum var Sigrún farin að lesa meira krefjandi efni og gat lesið bækur á hinum ýmsu tungumálum, til að mynda dönsku, ensku og þýsku. Hún lærði líka nokkuð í frönsku en var ekki eins sleip í henni og hinum tungumálunum.Halldóra Bjarnadóttir. (1970). Sigrún P. Blöndal. Heima er bezt, bls. 69 – 72.
Eiríkur Sigurðsson. (1978). Af héraði og úr fjörðum. Reykjavík: Bókfell
hf. [bls. 11 – 38]
Sigurður Blöndal. (1979). Sigrún Pálsdóttir Blöndal. Í Gísli Kristjánsson (Ritstj.)
Móðir mín húsfreyjan, 187 – 220. Reykjavík: Bókfell hf.
Upp