Fara í efni
Solveig Arnórsdóttir
Solveig Arnórsdóttir

Solveig Arnórsdóttir (*1928)

Skoða vefnað eftir Solveigu

Engar vörur fundust fyrir framleiðanda

Solveig Arnórsdóttir

Solveig Arnórsdóttir var fædd 25. maí 1928 í Laugaskóla í Reykjadal, S-Þingeyjarsýslu, dóttir hjónanna Arnórs Sigurjónssonar fyrsta skólastjóra Alþýðuskólans á Laugum og Helgu Kristjánsdóttur kennara við skólann. Solveig ólst upp í Reykjadalnum til 7 ára aldurs en þá flutti hún með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur. Hún var þó alltaf í sveit á sumrin, fyrst hjá afa sínum Sigurjóni Friðjónssyni á Litlu-Laugum en síðan í Höfða í Mývatnssveit í þrjú sumur.

Solveig gekk í Miðbæjarskólann, en var síðan einn vetur í Mýrarhúsaskóla og annan í Ingimarsskólanum eftir að foreldrar hennar keyptu Lambastaði á Seltjarnarnesi. Aftur fluttist fjölskyldan norður í Þingeyjarsýslu 1942 en þá keyptu þau Arnór og Helga jörðina Þverá í Fnjóskadal og kenndi Solveig sig lengi við þann bæ. Hún tók gagnfræðapróf frá M.A. vorið 1945 og var síðan í Húsmæðraskólanum á Laugum veturinn 1946-1947, en móðir hennar Helga var í forystusveit þeirra kvenna sem börðust fyrir því að sá skóli væri stofnaður og sat hún einnig lengi í stjórn hans. Solveig varð stúdent frá M.A. 1951 og þá um haustið hélt hún til Svíþjóðar til elstu systur sinnar Steinunnar, sem þar bjó og var gift sænskum manni.

Solveig fékk inngöngu í vefnaðarkennaraskólann ,,Handarbetets Vänners Vävskola“ í Stokkhólmi en ,,Handarbetets Vänner“ var margþætt sjálfseignastofnun sem stóð á gömlum merg og naut virðingar sem slík. Skólinn var til húsa í stórri og reisulegri byggingu sem stóð á fögrum stað í Djurgården, beint á móti ,,Skansen“. Sybylla Svíaprinsessa var verndari skólans og kom hún einu sinni í heimsókn á meðan Solveig var þar við nám. Nær öll starfsemi í byggingunni tengdist á einn eða annan hátt ,,Handarbetets Vänner“. Á efstu hæðinni voru geysistórir vefstólar, þar sem ofnar voru mottur af ýmsum gerðum, á annarri hæð var setið við saumaskap á ýmis konar kirkjulist og þarna var a.m.k. einn landsþekktur hönnuður til húsa og umsjónarkennari skólans bjó þar einnig. Í húsinu var einnig sýningarsalur og lítill og notalegur smárétta- og kaffiveitingastaður þar sem ofin línteppi héngu á kölkuðum veggjunum.

Vefnaðarkennaraskólinn var á 4ðu hæð hússins. Þar var hátt til lofts og vítt til veggja. Milli hæða lágu slitnar og mikið gengnar steintröppur. Náminu við skólann var skipt í 4 annir og voru um 8 stúlkur teknar inn á hverja önn, þannig að milli 30 og 40 stúlkur voru að jafnaði í skólanum í einu. Solveig byrjaði í skólanum 1. febrúar 1952 en útskrifaðist með kennararéttindi þaðan rétt fyrir jólin 1953. Í upphafi næstu annar eftir að Solveig hóf námið, byrjaði Sigríður Halldórsdóttir þar einnig nám, sú mæta vefnaðarkona og kennari. Urðu þær Solveig og hún góðar vinkonur og deildu þær leiguhúsnæði saman á meðan báðar voru við skólann og hélst með þeim góður vinskapur alla tíð síðan.

Vera Solveigar við ,,Handarbetets Vänners Vävskola“ skipaði sérstakan sess í lífi hennar. Fornir siðir og nýir straumar ófust þar saman og settu mark sitt á nám og námsmeyjar. Samskipti kennara og nemenda voru formleg og gjarnan í 3ju persónu og ávörpin ,,fröken“ og ,,fru“ notuð eftir aðstæðum og virðingarstigum. Nákvæmni og stundvísi voru í hávegum höfð og hangs eða slóðaháttur ekki liðinn. Margt var nýstárlegt fyrir námsmey ofan af Íslandi, en eftir örlitla byrjunarörðugleika vandist það allt. Námsmeyjarnar sem voru með Solveigu á önn voru allar af landsbyggðinni, flestar voru þær með ígildi gagnfræðaskólamenntunar og höfðu allnokkra reynslu af vefnaði. Hópurinn náði vel saman og Sigríður Halldórsdóttir slóst oft í hópinn og var oft til hennar leitað með aðstoð við eitt og annað sem að vefnaði laut. Solveig stóð í bréfasambandi við tvær skólasystranna (Astrid Axelsson og Ingrid Matsson) alla þeirra ævi, en þær unnu við vefnað alla sína starfsæfi.

Sænski vefnaðurinn var um margt ólíkur því sem Solveig hafði lært á Laugum í Reykjadal, sérstaklega hvað varðaði litaval. Á Laugum var mest unnið með íslenskt kambgarn frá Álafossi og Gefjun, en það kambgarn á reyndar lítið annað sameiginlegt með því kambgarni sem nú fæst, annað en nafnið og það að það er spunnið hér á landi. Einnig var ofið úr loðbandi og einspinnu (einbandi). Sömuleiðis var unnið úr svokölluðum tvisti eða bómullargarni. Jurtalitað band var í hávegum haft, oft ofið í dökkan grunn, en þó einnig stundum í ljósan. Mun meiri léttleiki var yfir sænska vefnaðinum en þeim íslenska, bjartir og skærir litir notaðir umfram þá dökku. Í skólanum lærði Solveig einnig að vinna í hör og ,,cottólín“ ( sem er blanda af baðmull og hör) og fleiri gerðum garns.

Löng og fjölbreytt vefnaðarhefð er í Svíþjóð, en einnig þó nokkur nýsköpun, sem námsmeyjar við skólann tóku þátt í og nutu góðs af. Framleiðendur vefnaðarvöru sýndu nemendasýningum áhuga í leit sinni af nýjum mynstrum og hugmyndum. Ein af samnemendum Solveigar seldi m.a. einum áklæðaframleiðanda mynstur, sem síðan var notað til framleiðslu áklæðis.

Eftir að Solveig kom heim frá námi í Svíþjóð hóf hún störf sem vefnaðarkennari við Kvennaskólann á Blönduósi haustið 1954. Þá var skólastýra við skólann, frú Hulda Á. Stefánsdóttir og stýrði hún skólanum allan þann tíma sem Solveig starfaði við hann. Hún kenndi við skólann fram á vorið 1962, en Bryndís Guðmundsdóttir leysti hana af að hluta til veturinn 1960-1961. Fyrsta vetur Solveigar í kennslu gætti sænsku áhrifanna hvað mest varðandi efnisval og liti, smám saman blönduðust áhrifin frá Laugum og aðrir íslenskir straumar inn í kennsluna. Vefnaðarkennslunni hagaði að mestu þannig að stúlkurnar völdu með aðstoð Solveigar þau verkefni sem þær unnu að (ófu) og má þar nefna veggteppi, mottur, dregla, værðarvoðir og sjöl. Áhersla var lögð á að stúlkurnar næðu nokkurri færni í uppsetningu á vefjum í vefstólana og útbjó Solveig einfaldar leiðbeiningar í fjölriti handa þeim til eignar. Hún lagði áherslu á að námsmeyjar hennar sæktu sér mynstur og fyrirmyndir sem víðast við vefinn og voru þar mest áberandi sænsk, norsk og íslensk mynstur og áhrif. Solveig naut sín vel við kennsluna á Blönduósi enda námsmeyjar almennt mjög áhugasamar um vefnaðinn.

Eftir að Solveig hætti að kenna á Blönduósi lagði hún vefnaðinn að mestu til hliðar, þótt vefstóll stæði stundum uppi í einu herbergjanna á heimili hennar. Þó má geta þess að hún óf m.a. gólfdregil fyrir Þingeyrarkirkju að beiðni frú Huldu Stefánsdóttur veturinn 1962-1963, en hann óf hún úr teppabandi frá Álafossi og var hann ofinn með rósabragðsröndum. Þá sinnti Solveig einnig prófdómarastarfi við skólann eftir að hún hætti kennslu við hann. Sömuleiðis var hún prófdómari í nokkra vetur á húsmæðraskólanum á Löngumýri í Skagafirði og fékk þá stundum að grípa í vefstól þar og vefa.

Á meðan Solveig var við kennslu á Blönduósi, kynntist hún Halldóri Hafstað bónda í Vík í Skagafirði og síðar eftir að þau giftust fluttu þau í nýbýlið Útvík þar sem þau ráku kúabú með meiru. Solveig tók að sér handavinnukennslu stúlkna í Barnaskóla Staðarhrepps í nokkur ár og haustið 1970 hóf hún handavinnukennslu við Barnaskóla Sauðárkróks (nú Árskóla) og var við það starf í 7 vetur, en eftir það vann hún við kennslu yngri barna og sérkennslu allt til ársins 1995.

Solveig tók um tíma allmikinn þátt í félagsstörfum ýmsum. Hún var mikil kvenfélagskona og var m.a. formaður Sambands skagfirskra kvenna 1983-1989. Í hreppsnefnd Staðarhrepps sat hún 2 kjörtímabil og var hreppstjóri hreppsins 1988-1992. Solveig sat einnig í skólanefndum og fræðslunefndum um tíma. Einnig tók Solveig ásamt Halldóri virkan þátt í starfi Skógræktarfélags Skagafjarðar.

Solveig og Halldór stunduðu búskap í Útvík þar til Árni sonur þeirra tók við búi 1994, en þau fluttust að Dýjabekk árið 1993, húsi sem þau reistu í skógrækt úr landi Útvíkur og bjuggu þar allt þar til árið 2019 þegar þau fluttu að Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki þar sem þau búa nú. Auk Árna eiga þau Solveig og Halldór dæturnar Ingibjörgu og Ingunni Helgu og soninn Arnór.