- 11 stk.
- 05.03.2020
Hálfdregill er yfirleitt ofinn eftir tvíkaflamunstri og hann einkennist af langröndum sem koma með reglulegu millibili. Þær myndast með svokölluðum bindiþráðum. Hver rúða í kaflamunstri táknar yfirleitt 10–16 þræði í inndráttarmunstri og því þarf að nota bindiþráð til þess að munsturþráðurinn liggi ekki laus á of stóru svæði. Bindiþráðurinn er þræddur inn á gagnstæðum sköftum hvers kafla. 1. kafli er þræddur inn á 1. og 2. hafaldaskaft og bindiþræðir í 1. kafla koma þá á sköft 3 og 4 til skiptis, á fjögurra til átta þráða fresti. 2. kafli er þræddur inn á 3. og 4. hafaldaskaft og koma þá bindiþræðirnir á sköft 1 og 2 til skiptis, á fjögurra til átta þráða fresti.
Hálfdregill er mest notaður í handklæði, dúkavoðir og áklæði en einnig má nota hann á fjölbreyttari hátt með grófari uppistöðu og ívafi.